DANSFÉLAG REYKJAVÍKUR
Til þess að geta keppt á dansmótum þarf að vera í íþróttafélagi. Dansfélag Reykjavíkur (DR) er íþróttafélag sem starfar innan Dansskóla Köru (DK) og var það stofnað 24. apríl 1994. Helstu markmið félagsins eru að iðka samkvæmisdans sem íþrótt, efla áhuga á þeirri íþrótt og stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar hennar og þannig að styðja við bakið á dönsurum í DK með ýmsum hætti.
DR hefur staðið fyrir æfingabúðum ásamt DK, einni eða fleirum, á hverju ári og hafa stjórnarmenn DR, kennarar DK og foreldrar barnanna unnið saman að þessu. DR hefur styrkt þessar búðir myndarlega með niðurgreiðslu á kostnaði.
Félagið hefur stutt við bakið á félagsmönnum sínum sem hafa farið erlendis að keppa með því að greiða fyrir kennara með þeim út.
Einnig hefur félagið stutt við bakið á sínum afreksmönnum sem hafa farið út að keppa á Evrópu-og heimsmeistaramótum með góðum fjárstyrkjum.
Fyrir þá sem tippa þá er félagsnúmer DR í getraunum 160.
Hér eru nánari upplýsingar um klæðaburð og reglur DSÍ.
LÖG DANSFÉLAGSINS
Félagið heitir Dansfélag Reykjavíkur, skammstafað DR, og er aðsetur þess í Reykjavík. Félagið er aðili að ÍBR, DSÍ og ÍSÍ og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar. Markmið félagsins er að iðka samkvæmisdans sem íþrótt, efla áhuga á þeirri íþrótt og stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar hennar.
Hér eru lög dansfélagsins í heild sinni
1. grein
Félagið heitir Dansfélag Reykjavíkur, skammstafað DR, og er aðsetur þess í Reykjavík. Félagið er aðili að ÍBR, DSÍ og ÍSÍ og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.
2. grein
Markmið félagsins er að iðka samkvæmisdans sem íþrótt, efla áhuga á þeirri íþrótt og stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar hennar.
3. grein
Félagið er öllum opið. Kjörgengi og atkvæðisrétt hafa þeir félagsmenn sem náð hafa 16 ára aldri og hafa fullgilt félagsskírteini. Á aðal- og félagsfundum getur enginn félagsmaður farið með meira en tvö atkvæði fyrir utan sitt eigið og skal það vera samkvæmt skriflegu umboði viðkomandi félagsmanna.
4. grein
Árgjald félagsins skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Gjalddagi félagsgjalds er 1. janúar.
5. grein
Greiði félagsmaður ekki félagsgjöld fyrir 1. mars sama ár , skal setja hann á skrá yfir óhlutgenga félaga, er ekki hafa leyfi til að keppa fyrir hönd félagsins, hafa ekki atkvæðisrétt á fundum þess og eru ekki kjörgengir í stjórn og nefndir.
6. grein
Stjórn félagsins skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Stjórnin skal kosin á aðalfundi, þannig: Formaður til eins árs og 2 stjórnarmenn til tveggja ára. Ennfremur skal kjósa 2 varamenn og 2 skoðurnarmenn, til eins árs í senn. Ef fram koma tillögur um fleiri stjórnarmenn en kjósa á, skal stjórnarkjör vera skriflegt.
7. grein
Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins í öllum greinum. Hún hefur umráð yfir eignum þess og boðar til funda. Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema meirihluti stjórnar séu henni fylgjandi. Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu, álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi.
8. grein
Reikningar félagsins miðast við áramót.
9. grein
Aðalfund skal halda ár hvert, eigi síðar en 15. apríl . Til aðalfundar skal boða með minnst 10 daga fyrirvara og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað, án tillits til þess hversu margir mæta. Á aðalfundi skal kjósa fundarstjóra og fundarritara. Á aðalfundi skulu mál tekin fyrir í þeirri röð, sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar bornir undir atkvæði.
4. Lagðar fram tillögur að breytingum laga félagsins, ef um er að ræða.
5. Ákvörðun árgjalda.
6. Kosning formanns, stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna, samkv. 6. grein laga félagsins.
7. Önnur mál.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála.
10. grein
Lögum þessum má breyta á aðalfundi og nægir einfaldur meirihluti fundarins til þess að lagabreyting sé lögleg. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. mars og skal þeirra getið í fundarboði.
11. grein
Aukaaðalfund skal kalla saman með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara:
a) Eftir ákvörðun aðalfundar.
b) Ef 3/4 hlutar stjórnar félagsins samþykkir það.
c) Þegar a.m.k. helmingur félaga óskar þess.
Á aukaaðalfundi verða aðeins tekin fyrir mál, sem tilgreind eru í fundarboði.
12. grein
Félagsfundi skal boða svo oft, sem stjórnin ákveður eða skrifleg ósk kemur frá eigi færri en 10 félagsmönnum. Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara og skal fundarefnis getið í fundarboði. Á félagsfundum skal kjósa fundarstjóra er stjórnar fundi og fundarritara, sem heldur fundargerð. Einfaldur meirihluti fundarins nægir til að samþykktir og breytingar á reglugerðum verði löglegar. Á félagsfundum er ekki hægt að breyta lögum félagsins. Heimilt er að hafa fundargerðir í þar til gerðum lausblaðamöppum.
Þannig breytt og samþykkt á aukaaðalfundi 9. júlí 2007.
Samþykkt á stjórnarfundi 6. apríl 1995 og framhaldsstofnfundi 30. apríl 1995.
Breyt. á aðalfundi 27. mars 1996.
Breyt. á aðalfundi 25. febrúar 1997.
Breyt. á aðalfundi 8. mars 1999.
Breyt. á aðalfundi 6.apríl 2000.
FJÁRÖFLUNARNEFND
Markmið fjáröflunarnefndar er að skipuleggja og sjá um framkvæmd hópverkefna í fjáröflun til styrktar þeim keppnispörum, sem hyggja á keppnisferðir til útlanda á tímabilinu.
Hér er nánari skilgreining á tilgangi fjáröflunarnefndar, reglur og hennar helstu viðfangsefni.
1.gr.
Fjáröflunarnefnd skal skipuð af stjórn félagsins til eins árs í senn. Starfstími nefndarinnar er sá sami og stjórnar.
2.gr.
Fjáröflunarnefnd skal skipuð fimm fulltrúum úr hópi félagsmanna og skal formaður valinn sérstaklega.
3.gr.
Markmið fjáröflunarnefndar er að skipuleggja og sjá um framkvæmd hópverkefna í fjáröflun til styrktar þeim keppnispörum, sem hyggja á keppnisferðir til útlanda á tímabilinu.
4.gr.
Fjáröflunarnefnd hverju sinni tekur ákvörðun um fjölda fjáröflunarverkefna á tímabilinu og gerir hvert verkefni upp að því loknu og skiptir hagnaði að jöfnu milli þátttakenda. Skal nefndin svo fljótt sem við verður komið skila rekstraruppgjöri vegna hvers verkefnis til gjaldkera félagsins, þó eigi síðar en 15 dögum eftir að verkefni lýkur. Í þeim tilvikum sem árangur fjáröflunar fer eftir einstaklingsframtaki getur fjáröflunarnefnd ákveðið fyrirfram að hagnaður skiptist milli þátttakenda eftir árangri hvers og eins.
5.gr.
Innistæðu í fjáröflunarsjóði má greiða út þegar útgjöld myndast vegna keppnisferðar.
6.gr.
Innistæða pars í fjáröflunarsjóði fæst greidd út hætti parið keppni. Hætti par af öðrum sökum við keppnisferð, fæst inneign þess í fjáröflunarsjóði færð yfir á næsta tímabil.
7.gr.
Fjáröflunarnefnd skal kynna keppnispörum með hæfilegum fyrirvara hvenær farið verður í fjáröflunarverkefni og setur tímamörk vegna þátttökutilkynninga. Nefndin getur hafnað þátttökutilkynningu, sem berst eftir lok auglýsts frests.
8.gr.
Óheimilt er að nota nafn félagsins til fjáröflunar, nema með vitund og samþykki fjáröflunarnefndar.
9.gr.
Ákvarðanir fjáröflunarnefndar eru gildar, þegar meiri hluti nefndarmanna tekur afstöðu og ræður atkvæði formanns úrslitum, falli atkvæði jafnt.
10.gr.
Fjáröflunarnefnd skal í upphafi starfstímabils skila til stjórnar félagsins framkvæmdaáætlun yfir tímabilið. Í lok tímabils skal nefndin skila skýrslu til stjórnar um störf nefndarinnar yfir starfstímabilið. Framanritaðar reglur eru samþykktar á aðalfundi Gulltopps (Dansfélags Reykjavíkur) 4. apríl 2001.
FERÐANEFND
Markmið keppnisferðanefndar er að skipuleggja og sjá um undirbúning og framkvæmd keppnisferða til útlanda á vegum Dansfélags Reykjavíkur fyrir keppendur félagsins á tímabilinu. Jafnframt skal nefndin aðstoða keppendur félagsins, sem hyggja á keppnisferð á Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistaramót við undirbúning ferðar.
Hér er nánari skilgreining á tilgangi ferðanefndar, reglur og hennar helstu viðfangsefni.
1.gr.
Keppnisferðanefnd skal skipuð af stjórn félagsins til eins árs í senn. Starfstími nefndarinnar er sá sami og stjórnar.
2.gr.
Keppnisferðanefnd skal skipuð fimm fulltrúum úr hópi félagsmanna og skal formaður valinn sérstaklega.
3.gr.
Markmið keppnisferðanefndar er að skipuleggja og sjá um undirbúning og framkvæmd keppnisferða til útlanda á vegum Dansfélags Reykjavíkur fyrir keppendur félagsins á tímabilinu. Jafnframt skal nefndin aðstoða keppendur félagsins, sem hyggja á keppnisferð á Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistaramót við undirbúning ferðar.
4.gr.
Stjórn Dansfélags Reykjavíkur tekur ákvörðun um það hvort þjálfari fer með í keppnisferð, þegar fyrir liggja upplýsingar um fjölda þátttakenda og skal við það miðað, að kostnaður hvers þátttakanda fari ekki yfir kr. 5.000.- í hvert sinn. Fjárhæðin skal tekin til endurskoðunar á aðalfundi ár hvert. Stjórnin ákveður jafnframt hverju sinni hvort félagið leggi fram styrk til niðurgreiðslu á kostnaði vegna þjálfara. Verði ekki talin forsenda fyrir þátttöku þjálfara, skal skipaður fararstjóri úr hópi forráðamanna.
5.gr.
Halda skal fund með keppendum og forráðamönnum með hæfilegum fyrirvara áður en keppnisferð hefst. Á fundinum skal gerð grein fyrir fyrirkomulagi keppnisferðar, þekktum kostnaði á keppnisstað svo og ferða og gistikostnaði ef flug og gisting er skipulögð fyrir allan hópinn.
6.gr.
Áður en ferð er farin skulu keppendum og forráðamönnum kynntar þær keppendareglur, sem þjálfari eða fararstjóri setur hverju sinni. Að öðru leyti gilda reglur ÍBR og ÍSÍ um keppnisferðir. Jafnframt skal nefndin kynna þátttakendum aðrar reglur svo sem klæðareglur o.þ.h.
7.gr.
Áfengisneysla keppenda er bönnuð á keppnum og í keppnisferðum.
8.gr.
Ákvarðanir keppnisferðanefndar eru gildar, þegar meiri hluti nefndarmanna tekur afstöðu og ræður atkvæði formanns úrslitum, falli atkvæði jafnt.
10.gr.
Keppnisferðanefnd skal í upphafi starfstímabils skila til stjórnar félagsins framkvæmdaáætlun yfir tímabilið. Í lok tímabils skal nefndin skila skýrslu til stjórnar um störf nefndarinnar yfir starfstímabilið.
Framanritaðar reglur eru samþykktar á aðalfundi Dansfélags Reykjavíkur 4. apríl 2001.
Kara Arngrímsdóttir